Ný viðbygging og útisundlaung opnuð við Sundhöll Reykjavíkur

Ný viðbygging og útilaugasvæði hefur verið opnuð við Sundhöll Reykjavíkur. VA Arkitektar hlaut fyrstu verðlaun í opinni samkeppni um hönnun hússins og annaðist í kjölfarið alla útfærslu þess og hönnunarstjórn.

Sundhöll Reykjavíkur við Barónsstíg er ein af þekktari byggingum landsins og um leið sú bygging sem margir telja eina þá bestu frá hendi Guðjóns Samúelssonar, arkitekts og húsameistara ríkisins.

Viðbyggingin er tveggja hæða frambygging við Barónsstíg og lágbygging sem liggur hornrétt frá henni meðfram lóðarmörkum til suðurs. Neðri hæð frambyggingar er niðurgrafin að Barónsstíg.

Aðalinngangur er næst tengibyggingu. Frambygging og lágbygging meðfram suðurlóðarmörkum mynda ásamt eldri byggingu og veggjum skjólgott laugasvæði mót suðri. Heildarflatarmál byggingarinnar eru.þ.b. 1.000 m². Lagnakjallari er auk þess um 350 m². Laugarsvæði er um 682 m². Stærð lóðar er um 3.484 m². Á laugarsvæði er 25 metra útilaug með fjórum brautum auk eimbaðs, tveggja heitra potta, eins nuddpotts og vaðlaugar.

Viðbyggingin við Sundhöll Reykjavíkur v/Barónsstíg verður fyrsta verkefnið hjá Reykjavíkurborg sem verður vottuð af BREEAM og er stefnt að einkunninni Very Good.