Búrfellsstöð II tilnefnd til steinsteypuverðlauna 2019

Búrfellsstöð II – Stoðveggur úr vistvænni steypu

Sumarið 2018 gangsetti Landsvirkjun nýja vatnsaflsstöð, sem ber heitið Búrfellsstöð II. Stöðin var reist neðanjarðar, í Sámstaðaklifi, rúmum tveimur kílómetrum frá Búrfellsstöð sem hefur verið í rekstri í fimmtíu ár. Með hlýnun jarðar hefur innrennsli úr jöklum á Þjórsár- og Tungnársvæðinu aukist til muna og var svo komið að Búrfellsstöð náði ekki að nýta að fullu rennslið og runnu árlega framhjá stöðinni um 410 GWst af orku. Með tilkomu hinnar nýju stöðvar fæst bætt nýting á rennsli Þjórsár um svæðið, sem er í anda hlutverks Landsvirkjunar að hámarka nýtingu þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir.

Búrfellsstöð II var hönnuð sem neðanjarðarmannvirki og var nýtt það miðlunarlón og flutningskerfi sem fyrir var. Með því hélst röskun á umhverfi með nýjum sýnilegum mannvirkjum í lágmarki. Stöðin er staðsett 300 metra inn í Sámsstaðaklifi og er uppsett afl hennar 100 MW. Einn hverfill er í stöðinni en gert er ráð fyrir í hönnun að síðar verði hægt að stækka stöðina.

Stoðveggur við aðkomumunna 
Aðkoma að stöðinni er um gangamunna í Sámstaðaklifi. Frá aðkomumunnanum er steyptur veggur beggja megin við. Veggurinn liggur út með munnanum austanverðum þar sem hæðin er meir en að vestanverðu nær veggurinn styttra út en við tekur landmótun þannig að landið opnar sig út frá munnanum. Stoðveggurinn tekur þannig á móti þeim mikla landhalla sem er við munnann og skermir sárið í berginu.

Val á vistvænni steypu 
Í samráði við sérfræðinga úr framkvæmdaeftirliti Landsvirkjunar og hönnuði stöðvarinnar var ákveðið að reisa stoðvegginn við aðkomugangamunnann úr vistvænni steypu. Samið var við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um að þróa og hanna vistvæna steypu sem hefði lægra kolefnisspor en hefðbundin steinsteypa. Var þessi veggur valinn fyrir það verkefni þar sem hann er áberandi veggur utandyra, sem mun með tímanum geta staðið sem rannsóknarverkefni við að meta hversu vel steypan reynist þola umhverfi og veðráttu. 

Picture
Picture

Staðsetning: Sámstaðaklif, Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Verkkaupi og eigandi: Landsvirkjun
Framkvæmdarár: 2018

Hönnun byggingamannvirkja: Verkís
Arkitekt: VA arkitektar

Framkvæmdaaðili: Byggingarverktaki ÍAV Marti Búrfell
Framkvæmdaeftirlit: Mannvit

Hönnuður vistvænu steypu: Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Framleiðandi steypu: BM Vallá

Steypumagn vistvænnar steypu: 195 m3