2022 - Litla Hraun
Fangelsið Litla Hraun samanstendur af ólíkum byggingum frá mismunandi tímabilum. Saman mynda þessar ólíku byggingar sundurleita heild, sem þó felur í sér ýmis tækifæri. Tillaga þessi hefur það að leiðarljósi að nýta núverandi byggingar til hins ítrasta, stuðla að hagkvæmri áfangaskiptingu og tryggja að staðsetning, form og tengingar nýbygginga gagnvart núverandi byggingum auki öryggi bæði fanga og starfsfólks. Verður þá til byggingarlist sem dregur fram þau gæði sem til staðar eru og gefur fangelsinu heildstætt og aðlaðandi yfirbragð.
Megininntak tillögunnar eru tveir nýir byggingahlutar sem liggja þvert á helstu núverandi byggingar. Skipta nýbyggingarnar útisvæðum upp í fjölbreytt rými, á sama tíma og nýjar tengingar verða til á milli byggingahluta. Þannig verður til hagkvæmari og öruggari rammi utan um starf fangelsisins.