2021 - Brúarvirkjun
Brúarvirkjun er 9,9 MW rennslisvirkjun í eigu HS Orku sem framleiðir um 82,5 GW stundir á ári, og er í Tungufljóti ofan þjóðvegar að Gullfossi í landi Brúar. Aðalstífla liggur þvert yfir farveg Tungufljóts rétt ofan við ármót Stóru-Grjótár og þaðan er áin leidd í um 1700 metra löngum neðanjarðar aðrennslisgöngum að stöðvarhúsi.
Við hönnun stöðvarhússins var leitast við að fella það vel inn í landið, enda er það lítt áberandi frá aðkomunni að sunnan. Stöðvarhúsið er klætt að sunnaverðu með timbri sem vísar í náttúrulega nærumhverfið, og cortenstál sem vísar í mýrarruða og staðfestir hið tæknilega eðli mannvirkisins. Á þakinu er lynggróður. Að austanverðu eru gluggar þar sem horfa má ofan í vélarsalinn.


