„Ef þú gerir alltaf það sama og þú alltaf gerir, muntu alltaf fá það sem þú alltaf fékkst.“
Albert Einstein
„Rökrétti maðurinn aðlagar sig að heiminum, en sá órökrétti er óþreytandi við að reyna að laga heiminn að sér. Þannig veltur öll framþróun á órökrétta manninum“
George Berhard Shaw
Eitt er það í starfi mínu sem arkitekt sem hefur valdið mér nokkru heilabroti. Það er þegar ég afhendi verkfræðingi grunnteikningar, og hann spyr mig „hvar er núllpunkturinn?“. Núllpunkturinn er einn af þessum hlutum sem er erfitt að skilgreina vegna þess að hann hefur enga efnislega, eða mælanlega vídd. „Núll“ sem staður eða stærðareining er í raun skilgreining sem útilokar sig sjálfa. Hvernig á ég sem arkitekt að tilgreina hvar miðjan eða upphafspunktur á hugverki mínu er? Hefur sá punktur þá meira gildi en aðrir? Rómverjar til forna nefndu Rómarborg „Caput Mundi“, miðju alheims. En spurningin er ekki lögð fram til að vera snúin eða illkvittin. Henni er í raun auðsvarað að svo framarlega að svarið sé
algjörlega tæknilegs eðlis. Ástæða þess að hún veldur mér heilabroti er vegna þess að hún afhjúpar mun tveggja hugsanaheima. Annarsvegar tæknilegan hugsanaheim verkfræðingsins sem grundvallast á vísindi og efnislega þekkingu, og hinsvegar rómatískan hugsanaheim arkitekts sem gengur út frá óefnislegu gildi hluta.
Annað áþekka dæmi er brunahönnuður sem langar að hafa hurð sem er bæði opin sem flóttaleið, en um leið eld- og reykþétt. Lausnin eru hurðir sem standa alltaf opnar nema þegar eldavarnarkerfi fer í gang og lokar þeim. Lokaðar þurfa þær hinsvegar að opnast auðveldlega með neyðarslá, og jafnvel með sérstakri löm sem leyfir þeim að opnast í báðar áttir þar sem erfitt er að spá fyrir um það í hvaða átt er flúið. Arkitekt veit hinsvegar að dyr eru afar mikilvæg hluti rýmisvitundar. Það að ganga gengum dyr er sú athöfn að stiga úr einu rými í annað. Táknræn og gildishlaðin athöfn. Rómverjar nefndu jafnvel Janus guð dyra, og vel eru þekktir sigurbogar þeirra og borgarhlið. Þessi athöfn að stiga úr einu rými í annað, úr einni tilveru í aðra hefur verið eitt af grundvallarviðfangsefnum byggingarlistar frá örófi. Þegar brunahönnuður segir við arkitekt „ég ætla að setja hurð á miðjum gangi vegna þess að þaðan er ákveðin fjarlægð frá útihurð, en hún má standa opin og aldrei vera farartálmi“, er ekki nema eðlilegt að arkitektinn verði ráðvilltur. Þessir tveir einstaklingar hafa báðir góðar ásetningar og gætu reynt að útskýra hvorum öðrum þær með orðum, en sitja uppi með það að nota til þess tvo ólík tungumál.
Nú færist í aukanna að verkkaupar biðja arkitektafyrirtæki um að þeir vinni í samræmi við gæðakerfi sem lýst er í gæðahandbók. Ennfremur þykir sumum ekki nóg að starfa eftir gæðakerfi, heldur þarf líka óháður vottunaraðili að staðfesta það að gæðakerfið sé skilgreint í samræmi við alþjóðlegan staðal ISO:9001. Lögð er áhersla á að gæðakerfið sé til þess gert að fyrirbyggja mistök eða „frávik“. Að allir vinnuferlar innan fyrirtækisins sé ítarlega skilgreindir og kortlagðir með skýringarmyndum. Að árangur sé auðþekkjanlegur og gæði mælanleg.
Í aldaraðir hafa menn velt fyrir sér hvernig gæði verða til og hvernig megi skilgreina mælanleg gildi þeirra. Eiginleikar eru skilgreinanlegir með vísindalegri aðferð. En hvenær og hvernig eignast eiginleikar gildi eða gæði. Aristotle fjallaði um gæði í bók sinni „categories“, en þar benti hann á að „Eitt og sama efnið, jafnvel þótt það haldi eiginleikum sínum, er samt kleift að eiga andstæð gæði“. Á sautjándu öld fjallaði John locke um gæði í bók sinni „An Essay Concerning Human Understanding“. Hann skilgreindi gæði sem „hugmynd um tilfinningu eða skynjun“. Ennfremur taldi hann að hlutir hefðu tvennskonar gæði. Annarsvegar gæði sem eru hlutbundin, en hinsvegar óhlutbundin gæði sem eru breytileg og verða til við skynjun.
Í bókum sínu „Zen and the Art of Motorcycle Maintenence“ og „Lila“ tekst Robert Pirsig á við hugmyndina um gæði (quality) og gildi (value), sem hann telur í raun vera það sama. Hann fjallar líka um togstreituna milli hins klassíska hugarheims og hins rómantíska. Hins vísindalega og hins dulræna. Enginn efast um tilvist gæða og/eða gilda. Við njótum þeirra í allri skynjun okkar, meðvitað eða ómeðvitað. Ef við setjum höndina í opin eld, erum við umsvifalaust meðvituð um ákveðin gæði.
Það er aðeins augnabliki seinna að við reynum, og líkamsbeitingu og orðræðu, að lýsa þessari reynslu af gæðum fyrir alla nærstadda. Reynsla þeirra getur hinsvegar af hlýju, dulúð eldsins eða efnafræðilega umbreytingu efnis við bruna. Eins er það þegar við sjáum málverk í myndlistarsafni að reynsla okkar er að gæðum og gildi þess. Lýsing okkar af málverkinu eru ekki sjálf gæðin heldur aðeins ófullkomin túlkun þeirra. Reynslan okkar af þessum gæðum er einstaklingsbundin og háð smekk hvers einstaklings. Gæði eru þannig í senn óbundin af efnislegum eiginleikum en um leið óháð reynslu okkar eða skynjun. Gæði eru hvorki með öllu hlutbundin né með öllu huglæg. Þau eru með öllu óefnisleg en um leið afar raunveruleg. Gæði eru breiðnefur heimspekinnar . . . einhverskonar frávik sem er hvorki skilgreinanlegt sem spendýr né skriðdýr.
Af þessum ástæðum vil ég leggja fram að gæðakerfið og gæðahandbókin, sérstaklega þar sem á við um skapandi ferli eins og byggingarlist, sé í raun andstæð markmiðum ferilsins. Gæði eða gildi hönnunarinnar verða aldrei sett í kerfi eða tryggð með endurteknum vinnuferlum. Þarna er verið að leitast við að láta rökræna klassíska hugsun ná utan um eitthvað sem er í senn raunverulegt en með öllu ómælanlegt.
Hugmyndin um gæðakerfi eða gæðatryggingu (Quality Assurance) á rætur að rekja til miðalda þegar iðnstéttir fóru að setja skilyrði fyrir inngöngu manna. Þannig gátu kaupendur vöru eða handverks verið fullvissir um að hún ætti uppruna hjá faglærðum manni. Við iðnbyltinguna urðu framleiðsluferlar flóknari og hvert sérhæft þrep þess reiddi sig á samræmda endurtekningu annarra þrepa. Þannig urðu gæðakerfi til vegna kröfu um að eiginleikar efnislegrar vöru yrðu alltaf þeir sömu. Frægt er orðið hvernig Japanir eftir seinni heimstyrjöld endurbyggðu brostinn efnahag með skipulögðum
vinnuaðferðum í verksmiðjum sem tryggðu endurtekna eiginleika vörunnar. Japanir notuðu gæðakerfi til að framleiða bíla og tæki sem höfðu mun lægri bilannatíðni en áður hafi þekkst.
En hvernig tekst til við að heimfæra kerfi sem gagnlegt er við framleiðslu iðnvarnings að mjög óefnislegu ferli hönnunar? Ég hef átt þess kost að vinna með stóru arkitektafyrirtæki á Bretlandseyjum, sjálfri háborg skriffinnskunnar. Þar var til staðar vottuð gæðahandbók og gæðastjóri. Ég spurði þá um það hvaða ávinning verkkaupar og fyrirtækið sjálft hefðu af gæðahandbókinni. Svarði var með bresku orðatiltæki „it´s just að tick in the box“, eða að þetta sé í raun bara merki á gátlista. Ég veit ekki til þess að starfsmenn fyrirtækisins hafi þekkt innihald gæðahandbókarinnar sérlega vel enda lýsti hún bara vinnuferli sem sjálfsagt þykir. Verkkaupinn krafðist að unnið yrði eftir vottuðu gæðakerfi og fyrirtækið uppfyllti það með tilheyrandi tilkostnaði sem var svo lagt ofan á þóknun til verkkaupa. Ekkert hafði breyst nema að þóknunin hafði hækkað örlítið og tveir aðilar; gæðastjórinn og vottunaraðilinn höfðu atvinnu. Það er sjálfgefið að fyrirtæki mun að öllum líkindum sjálfviljugt tileinka sér þær starfsaðferðir sem tryggja þeirra eigin hag og þá um leið ánægju viðskiptavinarins. Ég tel að ástæða þess að fyrirtæki sem veita arkitektahönnun demba sig ekki heilshugar í að vinna í samræmi við vandlega skilgreind vinnuferli gæðahandbókar eins og hún er skilgreind í alþjóðlegum staðli ISO:9001 er einfaldlega vegna þess að
verkfærið hentar alls ekki verkinu. Orðatiltækið segir „ef þú heldur á hamri, verður allt að nagla í þínum augum“. Gæðakerfið eins og það er skilgreint í staðli er sprottinn úr klassískum hugarheimi verkfræðingsins þar sem allt er mælanlegt og auðsýnilegt. Jafnvel núllpunktur holdgervist einhvernvegin sem efni, og dyr verða ekkert annað en eldtefjandi spjöld í flóttaleið.
Þegar vel tekst til felst vinna arkitekta í að sjá fyrir sér það sem ekki er augljóst. Að leika sér að hinu óvænta. Að skapa nýjar reynslu og nýjar lausnir. Arkitektar þurfa stöðulega að setja sig í spor notandans. Arkitektateikningar leitast við að sjá fyrir reynslu og skynjun manna af hinu byggða umhverfi. Arkitekt reynir að spá fyrir um þau gæði sem notandinn reynir og um hvaða gildi þau gefa honum. Þetta ferli er huglægt og útkoman er óefnisleg og ómælanleg. Aðeins notandinn getur sagt „já, ég reyndi gæði sem eru mér verðmæt. Ég get ekki að fullu líst þeim með orðum, en þau voru mér raunveruleg“.
Í bókinni sinni „The Innovator’s DNA: Mastering the Five Skills of Disruptive Innovators“ fjalla höfundarnir Jeff Dyer, Hal Gregersen og Clayton M. Christensen um hvaða sameiginlegu eiginleikar það eru sem einkenna fyrirtæki og einstaklinga sem eru umfram öðrum er brautryðjandi frumkvöðlar. Einn þessara fimm eiginleika er að frumkvöðull er óhræddur við að gera tilraunir og/eða mistök. Thomas A. Edison sagði um aðdraganda þess að hann fann eina færa leið til að búa til ljósaperu: „Ég fann upp 10.000 aðferðir til að búa EKKI til ljósaperu“. Mistökin, eða frávikin eins og þau eru nefnd í gæðahandbókinni, eru einmitt nauðsynlegur aðdragandi uppfinningar. Það að fyrirbyggja eða forðast frávik í skapandi ferli
er í raun það að tryggja það að fólk setja aldrei spurningarmerki við gildandi viðhorf. Það tryggir að fólk sjái ekki fyrir sér nýjar leiðir og nýjar tengingar.
Í ofangreindum viðskiptum mínum á Bretlandseyjum var eitt sem sló mig mest út af lagið. Eftir að ég hafði snætt fjölda kvöldverða með tilvonandi verkkaupa og staðfest með handabandi að ég myndi af bestu getu skila verkinu af heiðarleika og drenglyndi, fékk ég boð frá lögmanni hans og póstsendann samning upp á 98 blaðsíður. Í samningi þessum voru skilgreind allt að minnstu smáatriðum þeirra þjónustu sem ég átti að veita og hvar ég yrði sóttur til saka ef allt gengi ekki samkvæmt bókstafi samningsins. Á einhvern hátt særði þetta mig, og eftir þetta var verkkaupi ekki lengur samstarfsmaður og vinur heldur andstæðingur. Þetta, sem í einum menningarheimi þykir sjálfsagt, fannst mér lítilsvirðing. Hvernig gátu jafnvel 98 blaðsíður af lögfræðimáli komist nærri því að skilgreina þá þjónustu sem ég hafði einskorðað mig að veita? Ég gekk út frá að þetta væri mitt eigið persónulega vandamál sem byggðist á mínum bakgrunni í Íslenskri sveitamenningu. En nú veit ég að það sama gildir í öðrum menningarsvæðum. Í arabaheiminum t.d. eru menn orðvarir, en þá gildir það sem er sagt. Og
sérstaklega á þetta við það sem sagt er þegar og eftir að menn hafa deilt máltíð saman. Svipað gildir í Japan þar sem heimamönnum finnst móðgun að vera beðnir um að undirrita samning eftir að munnlegt samkomulag hefur náðst. Einnig hef ég lesið að indíánar Norður Ameríku hafi alls ekki skilið samning sem evrópskir menn réttu þeim og fjallaði um afnot á landi. Hvernig mátti með nokkrum takmörkuðum orðum á pappírsblaði ná utan um þau gæði sem fólust í landi? Hvernig gátu þessi
orð lýst þeirri skynjun að finna golu á hörund sitt, mikilfengleika víðáttunnar, dulúð kvöldkyrrðarinnar? Það var ekki það að evrópskir menn vildi illt með samningi sínum, né heldur því að indíánum hugnaðist alls ekki að deila landinu. Jafnvel þótt orðin voru þýdd voru þessir tveir menningarheimar einfaldlega að tala tvö gjörólík tungumál og skildu ekki hvorn annan. Annars vegar var það þessi rökhugsandi klassíski hugsunarheimur þar sem allt er áþreifanlegt og mælanlegt, en hinsvegar var það rómantíski hugsunarheimurinn þar sem allir hlutir voru hlaðnir óáþreifanlegum gildum og merkingum.
Ég legg til að gæðakerfi og gæðahandbækur okkar sem störfum í skapandi greinum fjalli ekki svo mikið um þaulskipulögð vinnuferli þar sem sagt er nákvæmlega til um það hver gerir hvað á hvaða tíma og með hvaða hætti. Ég legg til að gæðahandbækur okkar fjalli um raunveruleg gæði. Að í þeim segjum við frá því hvaða heimsmynd við höfum, hvaða draumsýn, hvaða gildi, og hvað það er sem hvetur okkur til starfa. Ég held að þetta umfram allt annað séu viðeigandi upplýsingar fyrir tilvonandi viðskiptavin. Ég legg til að gæðahandbækur okkar staðfesti þá einlægu ósk okkar að gildi okkar
holdgervist í þeirri þjónustu sem við veitum. Ég legg til að vottunaraðilar okkar verði viðskiptavinir okkar, samstarfsmenn, samkeppnisaðilar og fjölskylda. Þá er eitthvað lagt undir, og þá fyrst held ég að við séum siðferðislega bundin af því að standa við okkar eigin yfirlýsingar.
Indro Candi
Greinaskrif þessi voru að hluta styrkt af Marie Curie Industry-Academia Partnerships and Pathways
áætlun Evrópusambandsins. Verkefnisnúmer 324448.