Samkeppnir

2024 - Austurbyggð Víkur. Skipulagskeppni fyrir nýtt hverfi í Vík í Mýrdal.

Tillagan byggir á núverandi aðalskipulagi. Með því að staðsetja íbúðabyggðina til norðurs og verslunar- og þjónustuvæði á sunnanverðu svæðinu, skýlum við nýrri íbúðabyggð fyrir hljóðáhrifum frá þjóðvegi. Skilin milli svæðanna tveggja eru brotin upp með bugðóttum umferðarási, sem skapar fjölbreytilegt spil útisvæða á milli norðurs og suðurs. Til verður lífleg götumynd sem fangar útsýni í átt að hinum mikilfenglegu Víkurhömrum og Víkurkletti og skapar skjól fyrir austanáttinni.
Tillagan leggur ríka áherslu á góðar tengingar við núverandi byggð, fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem og akandi. Rík áhersla er lögð á aðlaðandi stígakerfi fyrir gangandi og hjólandi og að styðja við hugmyndafræðina um 20 mínútna bæinn.
Íbúðasvæði (ÍB8, ÍB9) byggjast upp við einn umferðarás, sem liggur frá austri til vesturs, og eru tengingar við hann um ása frá suðurs til norðurs. Til að tryggja umferðaröryggi í fjölskylduvænu íbúðahverfi, er þessi ás brotinn upp reglulega með þrengingum og hraðahindrunum.
Göngustígar flétta saman núverandi byggð við þá nýju og tengja saman græn svæði, gönguleiðir og náttúruna í kring. Sjónrænir ásar milli Víkurhamra og sjávarsíðu annars vegar og milli bæjarins og Víkurkletts hins vegar undirstrika fegurðina í kring.


2022 - Litla Hraun

Fangelsið Litla Hraun samanstendur af ólíkum byggingum frá mismunandi tímabilum. Saman mynda þessar ólíku byggingar sundurleita heild, sem þó felur í sér ýmis tækifæri. Tillaga þessi hefur það að leiðarljósi að nýta núverandi byggingar til hins ítrasta, stuðla að hagkvæmri áfangaskiptingu og tryggja að staðsetning, form og tengingar nýbygginga gagnvart núverandi byggingum auki öryggi bæði fanga og starfsfólks. Verður þá til byggingarlist sem dregur fram þau gæði sem til staðar eru og gefur fangelsinu heildstætt og aðlaðandi yfirbragð.
Megininntak tillögunnar eru tveir nýir byggingahlutar sem liggja þvert á helstu núverandi byggingar. Skipta nýbyggingarnar útisvæðum upp í fjölbreytt rými, á sama tíma og nýjar tengingar verða til á milli byggingahluta. Þannig verður til hagkvæmari og öruggari rammi utan um starf fangelsisins.


2020 - NLFÍ hugmyndasamkeppni

Hugmyndafræði Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) speglast með áhrifaríkum hætti í heilsustofnun félagsins í Hveragerði. Náttúran er í fyrirrúmi; hún ljær starfsseminni sterkan blæ og er grunnur að meðferðarúrræðum sem styrkja bæði líkama og sál. Í tillögunni sem hér er kynnt til sögunnar mun náttúran, í öllum sínum litbrigðum, áfram skipa veigamikinn sess en um leið er skapaður einfaldur rammi utan um þá margvíslegu starfssemi sem fyrirhuguð er. Skilvirk starfssemi í bland við fjölbreytilega upplifun mun þannig leggja grunn að góðu lífi dvalargesta og starfsmanna. Á sama tíma mun ný íbúðabyggð á svæðinu mynda snertiflöt við bæinn og verða viðbót við hið blómlega bæjarlíf sem þrífst þar í dag.


2020 - Hjúkrunarheimili á Húsavík

Megininntakið er vinkillaga bygging með tveimur álmum sem ramma inn skjólgott og sólríkt útisvæði. Álmurnar telja hvor um sig þrjár hæðir með framúrskarandi útsýni. Aðalaðkoma hjúkrunarheimilisins er frá Skálabrekku, þaðan er gengið inn á jarðhæð með samkomusal, þjónustu- og starfsmannarýmum ásamt tengingu við dvalarheimilið Hvamm. Nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík verður heimili fyrir eldri íbúa bæjarins þar sem þeir geta notið fjölbreyttra upplifana og ánægjulegra stunda í öruggu og friðsælu umhverfi.


2019 - Hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði

Megininntak tillögu
Megininntakið er 2ja hæða viðbygging við Skjólgarð, núverandi hjúkrunarheimili, tengd við hana með tengigangi á efri hæð. Samkomusalur og skrifstofur liggja að götu en tveggja hæða íbúðaálma stendur neðar í lóðinni nær fjöru.
Tillagan sameinar skýra formgerð og rýmisupplifun þar sem tengsl nýbyggingar, eldra húss og einstæðrar náttúrunnar umhverfis eru í forgrunni. Yfirbragð viðbyggingarinnar er látlaust, léttleiki er í fyrirrúmi, hæð og hlutföll byggingarinnar laga sig að Skjólgarði og byggðinni umhverfis.

Helstu forsendur
Um er að ræða viðbyggingu við núverandi hjúkrunarheimili og heilsugæslustöð sem þjónað hafa Hornafirði og nærsveitum um áratuga skeið. Mikilvægt er að viðbygging myndi sterka og samstæða heild með byggingum sem fyrir eru en njóti um leið nálægðar við einstæða náttúruna umhverfis. Áskilið er að viðbygging uppfylli þær væntingar sem gerðar eru til hjúkrunarheimila dagsins í dag þar sem lögð er áhersla á að skapa aðstæður sem líkjast einkaheimilum eins og kostur er. Rýmisáætlun gerir grein fyrir nauðsyn eðlilegs samhengis í innri starfsemi.


2018 - Stjórnarráð Íslands - viðbygging

Megininntak tillögu
Megininntakið er 3ja hæða viðbygging við Stjórnarráðshúsið, samsíða því á baklóð og tengd við hana með einnar hæðar tengigangi. Tillagan sameinar skýra formgerð og rýmisupplifun þar sem tengsl Stjórnarráðshúss, nýbyggingar og borgarrýmisins umhverfs eru í forgrunni. Yfrbragð viðbyggingarinnar er afgerandi en um leið einfalt,
léttleiki er í fyrirrúmi og hæð og hlutföll byggingarinnar laga sig að Stjórnarráðshúsi og byggðinni umhverfs.

Helstu forsendur
Um er að ræða viðbyggingu við eina þekktustu byggingu landsins sem gegnt hefur lykilhlutverki í sögu þess með ýmsum hætti. Mikilvægt er að formgerð og fyrirkomulag viðbyggingar taki mið af þessu og myndi með aðalbyggingunni sterka og samstæða heild. Stjórnarráðshúsið er þannig í lykilhlutverki við mótun viðbyggingarinnar. Rýmisáætlun gerir grein fyrir nauðsyn eðlilegs samhengis í innri starfsemi.


2018 - Leikskóli á Seltjarnarnesi

Megininntak tillögu
Megininntakið er vinkillaga bygging á 1 - 2 hæðum meðfram Suðurströnd og Nesvegi. Tillagan mótar skýra formgerð við helstu gatnamót Seltjarnarness og skapar þar heilsteypta götumynd. Byggingin skýlir fyrir ríkjandi vindáttum og rammar inn sólríkt leiksvæði leikskólans. Myndast þar líflegt uppbrot á báðum hæðum þar sem bygging og útisvæði renna saman í eina lifandi heild.

Helstu forsendur
Um er að ræða nýja leikskólabyggingu fyrir allt að 300 börn við helstu gatnamót Seltjarnarness. Hún sameinar leikskóla sveitarfélagsins undir eitt þak og verður miðpunktur þar sem stór hluti íbúa kemur saman í byrjun og lok hvers dags.
Hinn nýi leikskóli er vel staðsettur, hann er í góðum tengslum við þjónustu og nærsamfélagið. Útsýni frá lóðinni er með besta móti, þar má sjá náttúrufegurð og mannlíf á aðliggjandi götum. Mikilvægt er að ný leikskólabygging nýti þessi gæði og skapi líflegan ramma utan um leikskólasamfélagið.

Tillagan var tilnefnd til innkaupa.


2018 - Grunnskóli Húnaþings vestra, viðbygging

Ný viðbygging við Grunnskóla Húnaþings vestra er um 1028 m2 að stærð, staðsett norðan við núverandi skólabyggingu og teygir sig frá vestri og upp með landinu til austurs. Útsýnið frá skóla og yfir bæinn helst óskert sem og bæjarmyndin þar sem horft er upp með læk og á kirkjuna. Vistlega leiksvæðið til suðurs er óhreyft og lögun og staðsetning nýbyggingar skapa fleiri skjólgóð útirými umhverfis skólann.
Að vestanverðu gengur nýbyggingin fram og myndar skjólgott og sólríkt svæði við aðalinngang skólans. Þar sem byggingin fylgir landinu upp hlíðina til austurs myndast einnig skjólgott útirými að austanverðu. Byggingin sækir form sitt og hlutföll í núverandi skólabyggingu og umhverfið. Notast er við sama halla á þaki og byggingin er brotin upp með ásum í einingar sem taka upp hlutföll og takt eldri byggingar. Þakið er mótað þannig að það gengur skemur til suðurs og myndar þar opin rými með aukinni lofthæð og birtu. Ásar liggja þvert og langt í gegnum bygginguna, tengja saman eldri og nýrri hluta skólans og skapa gott flæði milli allra rýma. Sjónrænar teningar verða einnig til eftir þessum ásum milli ólíkra hluta skólans og sömuleiðis út á lóð.


2017 - Nýr skóli í Dalshverfi í Reykjanesbæ


2016 - Sundhöll Ísafjarðar

Tillaga VA Arkitekta hlaut þriðju verðlaun.


2016 - Gufunes


2015 - Seltjarnarnes

Tillaga VA Arkitekta, í samstarfi við Trípóli Arkitekta, hlaut önnur verðlaun.


2015 - Moska


2015 - Ásbrú, skipulag

Tillaga VA Arkitekta hlaut önnur verðlaun.


2014 - Skipulag Háskólasvæðis

Tillaga VA Arkitekta hlaut deild önnur verðlaun.


2014 - Landmannalaugar, skipulag

VA Arkitektar og Landmótun hlutu fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um nýtt skipulag Landmannalaugasvæðis.

Í umsögn dómnefndar segir að tillagan feli í sér róttækar hugmyndir um endurheimt landgæða í Laugum. “Um sterka og djarfa skipulagshugmynd er að ræða sem getur myndað góðan grunn fyrir áframhaldandi skipulagsvinnu á svæðinu.”


2014 - Dalskóli í Úlfarsárdal

Tillaga VA Arkitekta hlaut fyrstu verðlaun.


2013 - Sundhöll Reykjavíkur

Tillaga VA Arkitekta hlaut fyrstu verðlaun


2013 - Höfðabakki 9, Nordic Built

Tillaga VA Arkitekta hlaut fyrstu verðlaun


2012 - Eyri, Hjúkrunarheimili á Ísafirði

Tillaga VA Arkitekta hlaut fyrstu verðlaun.