2024 - Austurbyggð Víkur. Skipulagskeppni fyrir nýtt hverfi í Vík í Mýrdal.
Tillagan byggir á núverandi aðalskipulagi. Með því að staðsetja íbúðabyggðina til norðurs og verslunar- og þjónustuvæði á sunnanverðu svæðinu, skýlum við nýrri íbúðabyggð fyrir hljóðáhrifum frá þjóðvegi. Skilin milli svæðanna tveggja eru brotin upp með bugðóttum umferðarási, sem skapar fjölbreytilegt spil útisvæða á milli norðurs og suðurs. Til verður lífleg götumynd sem fangar útsýni í átt að hinum mikilfenglegu Víkurhömrum og Víkurkletti og skapar skjól fyrir austanáttinni.
Tillagan leggur ríka áherslu á góðar tengingar við núverandi byggð, fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem og akandi. Rík áhersla er lögð á aðlaðandi stígakerfi fyrir gangandi og hjólandi og að styðja við hugmyndafræðina um 20 mínútna bæinn.
Íbúðasvæði (ÍB8, ÍB9) byggjast upp við einn umferðarás, sem liggur frá austri til vesturs, og eru tengingar við hann um ása frá suðurs til norðurs. Til að tryggja umferðaröryggi í fjölskylduvænu íbúðahverfi, er þessi ás brotinn upp reglulega með þrengingum og hraðahindrunum.
Göngustígar flétta saman núverandi byggð við þá nýju og tengja saman græn svæði, gönguleiðir og náttúruna í kring. Sjónrænir ásar milli Víkurhamra og sjávarsíðu annars vegar og milli bæjarins og Víkurkletts hins vegar undirstrika fegurðina í kring.